Guðmundur Arason
Guðmundur Arason
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

„Almennt í samfélaginu er þessi uppsveifla sem menn voru að búast við á fyrri hluta árs 2013 eitthvað að láta bíða eftir sér en við erum bara einbeittir í að grípa tækifærin sem koma og þau hafa verið að láta sjá sig,“ segir Guðmundur Arason, forstjóri Securitas.

Securitas er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði öryggisþjónustu. Það var stofnað fyrir um 35 árum og þjónar nú yfir tuttugu þúsund viðskiptavinum víðs vegar um landið. Starfsfólk fyrirtækisins er í kringum 400 og stendur það daglega vörð um heimili, fyrirtæki og sumarhús viðskiptavina sinna allan ársins hring. Fyrirtækið er eitt af framúrskarandi fyrirtækjum ársins að mati Creditinfo.

Guðmundur segir að þótt ekki séu margir aðilar á markaðnum fyrir öryggiskerfi og öryggisþjónustu þá hafi verið glettilega hörð samkeppni í bransanum síðastliðin 12 ár. Hann er engu að síður vongóður um gott árferði fyrirtækisins. „Við erum bjartsýnir á komandi ár og áframhaldandi góðan rekstur,“ segir hann.

Fjallað er um Securitas í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem fylgdi Viðskiptablaðinu á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .