Í framhaldi af vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands sem kynnt var fyrr í dag um hækkun stýrivaxta um 0,75 prósentustig, hefur Glitnir ákveðið að hækka óverðtryggða vexti sína um 0,50-0,75 prósentustig, segir í tilkynningu frá bankanum.

Breytingin tekur gildi frá og með 11. júlí. Jafnframt hefur Glitnir ákveðið að hækka vexti á verðtryggðum inn- og útlánum um 0,30 prósentustig. Þannig hækka verðtryggðir kjörvextir úr 5,30% í 5,60%.

Þá hefur Glitnir ákveðið að vextir verðtryggðra húsnæðislána til viðskiptamanna bankans hækka um 0,10 prósentustig og fara því úr 4,90% í 5,00%.

Breytingin tekur gildi föstudaginn 7. júlí. Þessi breyting á vöxtum húsnæðislána hefur hins vegar engin áhrif á kjör þeirra fjölmörgu sem tekið hafa húsnæðislán Glitnis til þessa.