Glitnir hefur ráðið hollenska bankann ABN Amro og þýska bankann Deutche Bank til að leiða væntanlegt skuldabréfaútboð í evrum, samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum erlendis.

Bankinn lauk nýverið sölu skuldabréfa að virði 1,25 milljarðar Bandaríkjadala (88,5 milljarðar króna) og var rúmlega þreföld umframeftirspurn eftir pappírnum. Vaxtakjörin voru 47 punktar yfir bandaríska LIBOR-vexti, sem eru millibankavextir í Bandaríkjunum.

Útboð evrubréfanna er háð markaðsaðstæðum og stærð útboðsins liggur ekki fyrir enn. Bankinn er með lánshæfismatið A1 hjá Moodys Investors Service og A-mínus hjá Standard & Poors.

Álag á skuldatryggingar ( e. credit default swaps) Glitnis hefur lækkað verulega síðan það skaust upp í kjölfar umróts á íslenskum fjármálamarkaði í fyrra, sem rekja má til neikvæðrar umfjöllunar erlendra greiningaraðila. Álagið var um 34 punktar við opnun markaðar í morgun og hefur nú náð jafnvægi eftir umrótið í fyrra.