Við reiknum með að Seðlabankinn tilkynni um 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta í kjölfar vaxtaákvörðunar í fyrramálið, segir greiningardeild Glitnis.

?Í ljósi stóryrtra skilaboða Seðlabankans í júlílok er ekki útilokað að bankinn hækki vexti sína meira en hér er spáð eða um 0,75 prósentustig líkt og í síðustu þrjú skipti sem bankinn hefur breytt vöxtum sínum. Vísbendingar hafa þó borist um rénun þenslunnar á síðustu vikum sem bankinn mun eflaust horfa til," segir greiningardeildin.

Hún segir að Seðlabankinn horfi fram í tímann við ákvörðun vaxta þar sem áhrif þeirra á hagkerfið skila sér með mikilli töf, eða á einu til tveimur árum.

?Vextir Seðlabankans eru nú 13% og við höfum spáð því að hæst fari bankinn með vexti sína í 14,5% fyrir áramót," segir greiningardeildin.