Leitarvélar- og tæknirisinn Google hefur endurskipulagt alþjóðlegt skattafyrirkomulag sitt og hætt notkun svokallaðrar „tvöfaldrar írskrar“ skattaundankomuleiðar, sem senn verður lokað fyrir. Hugverkaréttindi verða meðal annars færð aftur til Bandaríkjanna.

Írland gaf undan alþjóðlegum þrýstingi fyrir fimm árum og lokaði fyrir vinsæla skattaundakomuleiðina, sem sparað hefur bandarískum fyrirtækjum tugþúsundir milljarða. Fyrirtæki sem þegar voru að nota leiðina hafa samkvæmt löggjöfinni út þetta ár til að láta af fyrirkomulaginu.

Frétt Financial Times um málið hefur eftir prófessor í skattarétti að flest fyrirtæki hafi þegar uppfært skattafyrirkomulag sitt og hætt þannig notkun hinnar „tvöföldu írsku“ leiðar, en í staðinn fundið aðrar leiðir til að ná sama markmiði. Það sé því óvanalegt hvað Google sé seint til.

Samkvæmt fyrirtækinu er tilfærsla hugverka frá meðal annars Bermúda til Bandaríkjanna í samræmi við nýlegar skattalagabreytingar ríkisstjórnar Donalds Trump, sem taki að miklu leyti fyrir skattaundanskot með tilfærslu hugverkaréttinda til annarra landa.