Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands skorar á þjóðir heims að fara að fordæmi Breta og lækka skatta til þess að örva hagkerfi sín í kreppunni, er fram kemur á vefsíðu the Telegraph í morgun.

„Með því að bregðast við núna getum við ýtt undir vöxt í allra hagkerfa og verður kostnaðurinn af aðgerðarleysi mun meiri en af nokkurri aðgerð,“ sagði Gordon við komu sína til Bandaríkjanna í gærkvöld en leiðtogar 20 helstu iðnríkja heims munu hittast í Washington um helgina til þess að ræða fjármálakreppuna.

Að mati Telegraph er Brown með þessu útspili að leyta skjóls hjá öðrum löndum fyrir tillögur ríkisstjórnar sinnar um skattalækkanir sem lagðar verða fram síðar í mánuðinum.

Hagspekingar hafa spáð umtalsverðum skattalækkunum í tillögum Brown sem gætu numið nærri 500 punda lægri sköttum á ári fyrir hverja breska fjölskyldu en breska forsætisráðuneytið vildi hvorki staðfesta né neita þessum tölum í gærkvöldi þegar eftir því var leitað.

Áætlanir ríkisstjórnarinnar um að örva hagkerfið með fjárlögum, sem mun kalla á mikla skuldsetningu ríkissjóðs, hafa nú fengið mikilvægan stuðning frá Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka.

Þrátt fyrir þennan stuðning má skilja Brown þannig að góður árangur skattalækkananna velti að stórum hluta á því að önnurl lönd bregðist við með svipuðum aðgerðum, en slíkt myndi styðja við breska útflytjendur.

„Þessi fundur er haldinn á mikilvægum tímapunkti fyrir heimshagkerfið,“ sagði Brown og bætti við „Þetta er alþjóðlegt vandamál sem þarfnast alþjóðlegrar lausnar.“