Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lofaði mjög frammistöðu Al Gore í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifunum og sagði hann einn fremsta leiðtoga og áhrifamesta einstakling okkar tíma, þrátt fyrir að hann gegndi engu formlegu embætti.

Ólafur Ragnar gerði síst lítið úr hættunni af loftslagsbreytingum, og sagði hana jafnvel meiri en allar ógnir 20. aldarinnar samanlagðar; kreppuna, heimsstyrjaldirnar tvær og kalda stríðið.

Hann ámálgaði einnig persónulegan vinskap sinn við Gore, en þeir hafa verið málkunnugir í um tvo áratugi. Ólafur Ragnar gerði að umtalsefni efasemdaraddir sem hafa viljað stimpla málflutning Gores sem hræðsluáráður, en forsetinn sagði engum vafa undirorpið að fullyrðingar Gores væru sannleikanum samkvæmar.

Því til sannindamerkis benti Ólafur Ragnar á að Gore veitti friðarverðlaunum Nóbels viðtöku ásamt Rajenda Pachauri, forseta Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, sem hefur ályktað um málaflokkinn fyrir hönd vísindasamfélagsins.

Í lok kynningar sinnar sagði Ólafur Ragnar Al Gore vera „frábæra manneskju“ sem hefði bæði kennt sér og veitt innblástur.