Útlit er fyrir að heimtur Landsbanka Íslands og Glitnis vegna sölu á hlut þeirra í verslanakeðjunni Iceland verði tugi milljarða umfram bókfært virði hlutanna.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að bókfært virði hluta Landsbankans og Glitnis í Iceland sé um 140 milljarðar og munurinn því tæplega 100 milljarðar króna. Walker og félagar hans í stjórnendahópi Iceland eiga þegar 23% í fyrirtækinu.

Eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins hafa bankarnir samið við Malcolm Walker, stofnanda og núverandi forstjóra Iceland Foods, um sölu á 77% hlut bankanna. Kaupverðið er ekki gefið upp í tilkynningu sem bankarnir gáfu út, en það mun nema um 1,2 milljörðum sterlingspunda, eða um 234 milljörðum króna. Miðað við það er heildarvirði Iceland Foods keðjunnar um 1,55 milljarðar punda, um 300 milljarðar króna. Walker gerði tilboð að upphæð einum milljarði punda í hlutinn árið 2010, en því var hafnað.