Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Rapyd á Valitor af Arion banka með skilyrðum. Væntur hagnaður Arion vegna sölunnar, að frádregnum sölukostnaði er áætlaður um 5 milljarðar króna. Kvika banki mun taka yfir hluta af samningum Valitor við söluaðila.

Í tilkynningu SKE kemur fram að hefðu kaupin á Valitor gengið fram óbreytt og án íhlutunar, þá hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70%-75% fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum. „Telur Samkeppniseftirlitið að samrunaaðilar séu nánir keppinautar á markaði og að talsverðar aðgangshindranir séu til staðar.“

Rapyd hefur því skuldbundið sig til að selja frá sér „fjölbreytt safn færsluhirðingarsamninga“ til Kviku „sem samsvarar hærri markaðshlutdeild á meginmarkaði málsins en markaðshlutdeild Rapyd Europe“. Með sölunni fer markaðshlutdeild hins sameinaða fyrirtækis Rapyd og Valitors marktækt niður fyrir 50% að sögn SKE.

Í tilkynningu Kviku, sem veitir greiðslutengda þjónustu undir vörumerkjum Netgíró og Aur, segir að samkvæmt samningnum muni dótturfélag bankans verða svokallaður Payment Facilitator og á næstu mánuðum taka yfir samninga við viðkomandi söluaðila í samræmi, sem eftirleiðis verða þá viðskiptavinir bankans eða dótturfélags hans. Í kjölfar yfirfærslu samninganna muni Valitor veita tiltekna bakendaþjónustu og annast færsluhirðingarvinnslu vegna þeirrar færsluhirðingar sem dótturfélag Kviku veitir söluaðilum.

Kvika gerir ráð fyrir að samningurinn muni leiða af sér 200-300 milljóna króna jákvæð áhrif á afkomu bankans fyrir skatta frá og með árinu 2023.

Í kjölfar sölunnar hefur Arion banki óskað eftir heimild frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til að hrinda í framkvæmd 10 milljarða króna endurkaupaáætlun í kjölfar lúkningu viðskiptanna.