Marel mun greiða hluthöfum fyrirtækisins arð sem nemur 2,14 evru sentum á hlut fyrir síðasta rekstrarár. Heildararðgreiðsla fyrirtækisins nemur því um 15,3 milljónum evra eða um 1,7 milljörðum króna. Arðgreiðslutillaga stjórnar Marels var samþykkt á aðalfundi fyrirtækisins í gær, en arðgreiðslan samsvarar um 20% af hagnaði síðasta árs. Arðurinn verður greiddur út í krónum þann 23. mars næstkomandi en hluthafar geta óskað eftir því að arðurinn verði greiddur í evrum.

Að auki veitti stjórn Marel stjórnendum félagsins heimild til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 15 milljónir evra á árinu 2017 sem nýta má til greiðslu í hugsanlegum yfirtökum í framtíðinni.

Dagurinn í dag er því arðleysisdagur (e. ex-dividend date), þar sem viðskipti hefjast með bréf Marels án réttar til arðs vegna reikningsársins 2016.

Stefna Marel er að hlutfall hreinna vaxtaberandi skulda og EBITDA sé 2-3 sinnum EBITDA og að umframfjármagn sé varið til vaxtar, virðissköpunar og arðgreiðslna. Arðgreiðslu- og endurkaupsmarkmið fyrirtækisins er á bilinu 20-40% af hagnaði. Stærstu hluthafar Marels eru Eyrir Invest með 29,3% hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna með um 9,1% hlut og Gildi Lífeyrissjóður með 7% hlut. Gildi Lífeyrissjóður sat hjá í atkvæðagreiðslum fundarins.

Þá var stjórn félagsins endurkjörin og hana skipa Ann El­iza­beth Sa­vage, Arn­ar Þór Más­son, Ásthild­ur Mar­grét Ot­hars­dótt­ir, Ástvald­ur Jó­hanns­son, Helgi Magnús­son, Mar­grét Jóns­dótt­ir og Ólaf­ur Steinn Guðmunds­son. Ásthildur Margrét Otharsdóttir verður áfram stjórnarformaður.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, greindi hluthöfum frá rekstrarári síðasta árs á fundinum. Árið 2016 var eitt það besta í sögu fyrirtækisins og jókst hagnaður um 34% milli ára í 143,5 milljónir evra. Þá fór hann einnig yfir framtíðarsýn og stefnu fyrirtækisins, en Marel stefnir á 12% árlegan meðalvöxt á næstu 10 árum, borið saman við 4-6% áætlaðan markaðsvöxt.