Einn nefndarmaður Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um vaxtahækkun og hefði heldur kosið að fresta ákvörðun um aukið aðhald þar til á fundi peningastefnunefndar í september.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað þann 17.ágúst að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana verða því 3,5%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum 4,25%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga 4,5% og daglánavextir 5,5%.

Mat nefndarmanna á nauðsyn þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar á þessum fundi var mismunandi. Meirihluti nefndarmanna taldi rétt að draga nokkuð úr örvandi áhrifum peningastefnunnar og vinna gegn hugsanlegum þrýstingi á gengi krónunnar í því skyni að draga úr hættu á annarrar umferðar áhrifum. Þau koma m.a. fram í hækkandi verðbólguvæntingum, almennum verðhækkunum og miklum launahækkunum og gætu leitt til þess að mikil verðbólga festist í sessi.

Enn fremur hélt meirihluti nefndarmanna því fram að í ljósi vaxandi umsvifa í þjóðarbúskapnum væri lítil hætta á því að hófleg vaxtahækkun stöðvi efnahagsbatann, enda væri mikilli lækkun skammtímaraunvaxta undanfarna mánuði aðeins snúið við að litlum hluta.

Að mati eins nefndarmanns vó óvissan um þróun á alþjóðavettvangi og áframhaldandi viðkvæm staða innlendra efnahagsreikninga þyngra en verðbólguáhætta og væri því röksemd fyrir því að viðhalda núverandi aðhaldi peningastefnunnar á þessum fundi. Þessi nefndarmaður hélt því fram að eftirköst fjármálakreppunnar krefðust þess að vextir yrðu áfram lágir að því gefnu að gengi krónunnar lækkaði ekki öllu meira. Viðkvæm staða efnahagsreikninga, óvissar horfur í gengismálum og háir bankavextir á nýjum lánum hindruðu fjárfestingu og hagvöxt.

Þessi nefndarmaður hélt því fram að vaxtahækkun myndi þess vegna tefja efnahagsbatann enn frekar, auk þess sem aukin óvissa um þróunina erlendis gæti dregið úr honum. Hann áleit að aukin innlend verðbólga að undanförnu endurspeglaði fyrst og fremst þróun á alþjóðavettvangi sem líklega yrði tímabundin. Þótt hann væri sammála því að launahækkanir að undanförnu væru óhóflegar, hélt hann því fram að aukið aðhald peningastefnunnar við núverandi aðstæður hefði takmörkuð áhrif til að draga úr hvers konar verðbólguþrýstingi sem ætti sér upptök á vinnumarkaðnum, vegna þess að nýjar lánveitingar væru takmarkaðar og innlend eftirspurn veik. Hann varaði einnig við því að hækka vexti með það að markmiði að hamla gegn verðbólgu með hækkandi gengi krónunnar, sem gæti einnig dregið úr útflutningi Íslands.