Heildarrekstrarkostnaður Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka nam 45,7 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og jókst um 4,6 milljarða milli ára. Rekstrarkostnaður Arion banka jókst um 27,2% á milli ára en það skýrist að  miklu leyti af því að í júní 2017 var skuld bankans gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta upp á tæpa 2,7 milljarða felld niður sem kom til lækkunar á rekstrargjöldum í fyrra. Stærsti útgjaldaliður bankanna, launakostnaður, nam 25,1 milljarði króna og jókst um 6,1% milli ára. Heildarstarfsmannafjöldi bankanna þriggja nam 3.269 í lok tímabilsins og fækkaði þeim um 99 frá því í lok júní 2017 þrátt fyrir að starfsmönnum Arion samstæðunnar hafi fjölgað um 87 vegna aukinna umsvifa í alþjóðlegri starfsemi Valitor.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum bankanna var 58,3% hjá bönkunum þremur á fyrri helmingi ársins og hækkaði um 6,7 prósentustig á milli ára. Talsverður munur var á kostnaðarhlutfallinu milli banka. Hlutfallið var lægst hjá Landsbankanum eða 41,9% en var 66,2% hjá Arion banka og 69,8% hjá Íslandsbanka. Hér þarf hins vegar að taka tillit til þess að kostnaðarhlutfall Arion og Íslandsbanka er um 8% prósentustigum lægra þegar einungis er horft á móðurfélagið en ekki samstæðu bankanna í heild sinni.

Alls greiddu bankarnir tæpa 5 milljarða króna í sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, svokallaðan bankaskatt, á fyrri hluta ársins. Skatturinn, sem nemur 0,376% af skuldum bankanna, var lagður á árið 2010 til þess að afla tekna vegna kostnaðar sem hlaust af fjármálakreppunni og draga úr áhættusækni innlánsstofnana. Bankaskatturinn hefur fært tæplega 55 milljarða til ríkissjóðs úr bankakerfinu síðan hann var tekinn upp. Á sama tímabili hafa bankarnir greitt rúmlega milljarð í tekjuskatt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .