Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hefur orðið gríðarlegur samdráttur í innflutningi á byggingarvörum á undanförnum misserum. Nemur innflutningur á helstu byggingarvörum í tonnum talið á þessu ári einungis 29% af innflutningi sömu vara 2008 og um 20% af byggingarvöruinnflutningnum 2007. Eða 28.971 tonni fyrstu átta mánuðina 2009 á móti 99.706 tonnum allt árið 2008 og 145.814 tonnum árið 2007. Hefur þetta leitt til þess að stóru byggingarvörufyrirtækin hafa orðið að draga verulega saman seglin. Nýjasta útspil ráðherra varðandi álver á Bakka og línulagnir á Reykjanesi hefur ekki orðið til að auka bjartsýni rekstraraðila í þessari grein.

Eins og vb.is greindi frá á miðvikudag mun Byko loka verslun og timbursölu sinn á Akranesi í lok október vegna samdráttarins. Sigurður E. Ragnarsson, forstjóri Byko, segir að ekki standi þó til frekari lokanir, hvorki á landsbyggðinni né á höfuðborgarsvæðinu. Auk verslunar á Akranesi rekur fyrirtækið nú verslanir á Akureyri, Reyðarfirði, Selfossi og Reykjanesbæ auk verslana á þrem stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Húsasmiðjan hefur einnig dregið saman seglin á undanförnum misserum vegna gríðarlegs samdráttar á byggingamarkaði. Steinn Logi Björnsson forstjóri Húsasmiðjunnar segir að þar á bæ hafi menn brugðist mjög snemma við samdrætti á markaðnum. Þá hafi verið lokað strax í fyrra við Fiskislóð og á Smáratorgi.

„Við höfum þó ekki nein áform um frekari samdrátt. Ég býst við að allar mínar verslanir verði með jákvæða EBITA í ár þannig að það borgar sig ekki að loka fleirum," segir Steinn Logi.

Eftir niðurskurð á starfseminni eru um 630 manns á launaskrá hjá Húsasmiðjunni. Fyrirtækið leigir megnið af húsnæðinu undir starfsemi sína. Þar er aðallega um að ræða húsnæði sem er í eigu Eik fasteignafélags og síðan húsnæði sem er í eigu Landic Property. Húsasmiðja á hins vegar sjálf húsnæðið í Grafarholti og í Súðarvogi.