Tekjuhæstu leikararnir í Hollywood eru langtum tekjuhærri en tekjuhæstu leikkonurnar. Á þetta bendir Moira Forbes einn útgefenda Forbes í pistli sem birtist á vefnum.

Hún tekur sem dæmi fólkið sem er efst á lista yfir launahæsta leikarann og launahæstu leikkonuna. Þar er karlinn með meira en tvöfaldar tekjur konunnar. Tekjuhæstur karlanna var Robert Downey jr. Hann var með 75 milljónir dala í árslaun, eða sem nemur 8,9 milljörðum króna. Tekjuhæsta konan, Angelina Jolie, var aftur á móti með 33 milljónir dala. Það jafngildir 3.9 milljörðum króna.

Moira Forbes bendir á að þetta augljósa launabil segi ekki alla söguna. Fleiri vísbendingar séu um að það halli á konur. Karlar eigi til dæmis mun auðveldara með að fá góð hlutverk í góðum myndum en konur.