Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, segir ekki útilokað að ríkisstjórn landsins selji litlar eyjar úti fyrir ströndum landsins í Eyjahafi.

Ráðamenn á Grikklandi standa nú í viðræðum við fulltrúa lánardrottna gríska ríksins, fulltrúa frá Evrópusambandinu, evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna frekari lánveitinga til að gera stjórnvöldum kleift að standa við skuldbindingar sínar. Ríkisstjórnin hefur leitað allra leiða til að draga úr ríkisútgjöldum og fá aur í gríska ríkiskassann, sem er tómur. Viðræður standa sömuleiðis yfir um frekari aðhaldsaðgerðir.

Samaras sagði í samtali við franska dagblaðið Le Monde í dag, að ríkisstjórnin sé að skoða ýmsa möguleika til að bæta hag ríkisins, svo sem með einkavæðingu járnbrauta og hluta af ströndinni við Eyjahaf.

Samaras var spurður að því í viðtali við blaðið hvort komi til greina að selja eyjarnar, sem eru óbyggðar og mannlausar.