Grænlenska þingið hefur samþykkt að hefja annan áfanga rannsókna á möguleikum á byggingu álvers á Grænlandi. Greint var frá þessu í fréttatilkynningu frá Alcoa Inc. í gær.

Grænlenska þingið samþykkti, með miklum meirihluta, tillögu heimastjórnarinnar um að mögulegt álver með 340.000 tonna framleiðslugetu á ári, yrði staðsett í Maniitsoq á vesturströnd Grænlands.

Heimastjórnin samþykkti ennfremur að leggja fjármagn til frekari sameiginlegra rannsókna vegna verkefnisins. Næsti hluti rannsóknanna, sem mun standa til loka næsta árs, felst í því að kanna áhrif álvers á efnahag, samfélag og umhverfi.

Á næsta ári er einnig gert ráð fyrir að þingið fjalli um mögulegan eignarhlut Grænlands í verkefninu.

Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri frummálmvinnslu hjá Alcoa lýsir í tilkynningu frá félaginu sérstakri ánægju með samstarfið við grænlensku heimastjórnina og þingið.

„Við finnum fyrir miklum velvilja á Grænlandi vegna þátttöku okkar í þessu verkefni sem grænlenska heimastjórnin og þingið hafa stýrt einstaklega vel. Það er greinilegur vilji hjá yfirvöldum til að standa vel að þessum rannsóknum og kanna til hlítar kosti þess að byggja álver á Grænlandi. Saman erum við að vinna að því að byggja nýjar undirstöður fyrir grænlenskt efnahagslíf, til hagsbóta fyrir báða aðila,” segir Reitan.

Í tilkynningunni kemur fram að Grænlenska heimastjórnin hefur undanfarin ár kannað möguleika á því að styrkja efnahag Grænlands með nýrri iðnaðarstarfsemi. Í því sambandi hefur sérstaklega verið horft til álframleiðslu. Alcoa kom inn í verkefnið sem mögulegur samstarfsaðili um mitt ár 2006.

„Fyrirhugað álver myndi sameina endurnýjanlegar orkuauðlindir Grænlands og yfir 100 ára reynslu Alcoa af að byggja og reka álver á sjálfbæran hátt, í sátt við umhverfi og samfélag,“ segir í tilkynningunni.

Ákvörðun um staðsetningu mögulegs álvers var tekin eftir ítarlegar rannsóknir Alcoa, heimastjórnarinnar og samfélaganna í Nuuk, Sisimiut og í Maniitsoq, sem öll hafa lýst stuðningi við verkefnið.

Ef ráðist verður í byggingu álvers í Maniitsoq er áætlað að framleiðsla hefjist 2014-2015.