Ef gengið heldur áfram að styrkjast telur Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Veigs fjárfestingafélags, ekki ólíklegt að ætla að það verði verðhjöðnun í byrjun næsta árs.

,,Þetta veltur auðvitað fyrst og fremst á gengismálunum. Ég hef nefnt það að ég spái gengisvísitölunni í 175 stigum fyrir lok febrúar og þá gætum við séð verðhjöðnun, jafnvel í janúar, febrúar og mars,” sagði Jafet.

Hann sagði að þetta vekti upp spurningar um hvort fólk ætti að færa fjármuni sína inn á verðtryggða reikninga. ,,Menn gleyma því að hægt er að fá neikvæða verðtryggingu. Menn ættu því að taka óverðtryggða reikninga til að byrja með og skoða sín mál þegar kúfurinn er yfirstaðinn vegna þes að óverðtryggðir vextir eru mjög háir.”

- En hvernig treystir þú þér til að spá vísitölunni í 175 stigum?

,,Það byggir á því að öll þessi lán hafa skilað sér í hús og það hefur dregið gríðarlega úr innflutningi þannig að viðskiptajöfnuðirinn er jákvæður um nokkra milljarða króna í hverjum mánuði. Þegar það safnast saman skapast jafnvægi á framboð og eftirspurn. Stóri óvissuþátturinn á næsta ári eru þessi jöklabréf. Á að giska helmingurinn gæti verið til innlausnar á fyrri hluta ársins en ég spái því að þeir hangi inni því annars væru þeir að fara út með bullandi tapi. Auk þess fengju þeir aðeins 2% vexti á þetta annars staðar.”

Jafet sagðist heldur ekki vera viss um hvort þessir aðilar vildu út strax. Hann sagðist þannig geta séð fyrir sér að innlendir aðilar eins og Orkuveita Reykjavíkur gæti boðið þeim að færa sig yfir í verðtryggð lán innanlands og vinna þannig upp gengsitap á krónunni.

,,En svo veit maður aldrei hvað er á bak við þessa samninga. Eru einhverjir mjög flóknir gjaldmiðlasamningar sem liggja kannski ónýtir í gömlu bönkunum? Ég veit að nokkrir bankar gerðu gjaldmiðlaskiptasamninga á móti kaupum á jöklabréfunum en það er meira og minna ónýtt.”