*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 15. september 2017 11:30

Guðlaug: Svarthvítt prinsippmál

Stjórnarformaður Bjartrar framtíðar segir niðurstöður óformlegs fundar stjórnar Bjartrar framtíðar „algjörlega marktækar“.

Pétur Gunnarsson

Seint í gær ákvað stjórn Bjartrar framtíðar að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Í tilkynningu frá stjórninni, sem að Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður flokksins, sendi kom fram að: „Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.“

Guðlaug segir í samtali við Viðskiptablaðið að fundurinn þar sem að þetta hafi verið ákveðið hafi átt sér stað í Reykjavík. „Fundurinn fór fram eins og aðrir óformlegir stjórnarfundir Bjartrar framtíðar, þar sem að fólk situr í hring og segir sína skoðun og talar saman. Þarna voru um það bil fjörutíu manns mættir af áttatíu manna stjórn og svo voru eflaust einhver tíu í viðbót sem ræddu við okkur í gegnum Skype,“ segir stjórnarformaður flokksins. 

Hún tekur fram að niðurstaða kosningarinnar hafi síðan legið fyrir rétt um miðnætti. „Það var um 70% stjórnar flokksins sem bregst við. Svo þetta er algjörlega marktækt. Það er um 90% sem styður þetta. Það var eiginlega ekki ástæða til að spyrja frekari spurninga.“

Þegar hún er spurð að því hvort að það hafi verið samhljómur innan stjórnarinnar um þessa afdrifaríku ákvörðun þá segir hún: „Það var algjör samhljómur. Það var enginn einn sem lagði þetta til fram yfir annan. Þetta var okkar sameiginlega niðurstaða.“

Björt framtíð hefur ekki átt góðu gengi að fagna í skoðanakönnunum upp á síðkastið og hefur Óttarr Proppé, formaður flokksins og heilbrigðisráðherra, þurft að takast á við mörg erfið mál. „Það hefur ekki verið neinn bilbugur á heilbrigðisráðherra. Hann hefur ekki verið hræddur við að takast á við erfið mál. Við höfum stutt þessa ríkisstjórn heilhuga þar til í gær, eftir klukkan fimm. Við erum ekki að starfa fyrir skoðanakannanir. Það kom til tals þarna í gær að þetta væri svarthvítt prinsippmál, en hitt er algjört aukaatriði,“ segir Guðlaug að lokum. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is