Verð á einni únsu af gulli náði 1.800 dollurum í dag í fyrsta skipti frá árinu 2011. Um 40 milljarðar dollarar hafa streymt í sjóði sem tryggðir eru af verðmæta málminum á fyrri helming ársins.

Markaðsvirði gulls, sem er yfirleitt eftirsótt á óvissutímum, hefur hækkað um 19% á árinu. Gullverð var byrjað að hækka verulega fyrir Covid-faraldurinn sem ýtti svo enn frekar undir verðið, segir James Steel, aðalgreinandi verðmætra málma hjá HSBC, við Financial Times . Hann telur að verð á einni únsu geti náð 1.845 dollurum fyrir lok árs en verði komið aftur niður í 1.705 dollara á næsta ári.

Gullverð lækkaði í mars þegar fjárfestar sóttust eftir fjármagni þegar umfang kórónaveirunnar kom í ljós. Síðan þá hafa aðgerðarpakkar ríkisstjórna og seðlabanka víðs vegar um heim keyrt niður ávöxtunarkröfu á öruggari eignum, líkt og ríkisskuldabréfum. Það hefur grafið undan einni helstu ástæðunni fyrir að kaupa ekki gull: ekkert tekjustreymi.

Hræðsla við frekari aukningu á smitum og ferðatakmörkunum hefur einnig ýtt undir eftirspurn og verð, segir Carsten Menke hjá svissneska bankanum Julius Baer við FT.