Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins gerði bankakerfið meðal annars að umtalsefni sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld og sagði það eiga að biðjast afsökunar á offari sínu.

Hann sagði frjálshyggjuna hafa beðið hnekki og sömu lýsingu fékk stefna Sjálfstæðisflokksins, sem hann kallaði „óhefta markaðshyggju og græðgi“.

„Bankakerfið íslenska á að biðjast afsökunar á offari sínu, það á að vinna með stjórnvöldum og atvinnulífi að því að lágmarka skaðann. Við framsóknarmenn höfum í allan vetur talað fyrir þjóðarsátt og samvinnu á erfiðum tímum. Almenningur á ekki að líða fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda né heldur óraunsæja græðgi og vonda spilamennsku auðmanna,“ sagði Guðni á Alþingi í kvöld.

Varðstaða framsóknarmanna um Íbúðalánasjóð

Hann sagði að fjármálakreppan ætti sér bæði rót í alþjóðlegri þróun og offari íslensku bankanna. Hann sagði einnig að bankarnir hafðu ætlað að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef en það hefði ekki tekist, „sem betur fer“.

Og Guðni bætti við: „Þar höfum við framsóknarmenn staðið vörð og þeirri varðstöðu er fráleitt lokið. Enn er sótt að sjóði þessum og það eru ekki bara fulltrúar Sjálfstæðisflokks sem hér tala á skjön við Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, það gerði formaður Samfylkingarinnar einnig í Silfri Egils fyrir nokkrum dögum. Mikilvægi Íbúðalánasjóðs hefur ítrekað sannað sig og aldrei sem nú.“