Menningarfélag Akureyrar hefur ráðið Gunnar I. Gunnsteinsson í starf framkvæmdastjóra.

Gunnar hefur starfað sem framkvæmdastjóri Bandalags Sjálfstæðu leikhúsanna og Tjarnarbíós undanfarin ár. Jafnframt hefur hann starfað sem leikari, leikstjóri og framleiðandi til fjölda ára.

Gunnar er fæddur og uppalinn á Akureyri og stundaði nám við VMA á sínum yngri árum. Hann er útskrifaður leikari frá Leiklistarskóla Íslands og með MA í stjórnun menningar- og menntastofnana frá Háskólanum á Bifröst ásamt diplómu í markaðs- og útflutningsfræðum.

Gunnar hefur aðallega starfað með sjálfstæðum hópum, en einnig með helstu sviðslistastofnunum landsins s.s. Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni.