Byggingarfélag Gunnars og Gylfa hafa áform um að reisa 400 íbúðir í Lundi í Kópavogi og 150 íbúðir í Sjálandshverfinu í Garðabæ á næstu þremur til fjórum árum.

Verkefnið í Lundi komst á skrið árið 2005. Þar er nú þegar verið að ljúka framkvæmdum við 52 íbúðir sem verða afhentar í haust. Því til viðbótar er vinna að hefjast við 60 íbúðir í þremur blokkum. Þá stendur til að byggja þar 400 íbúðir í fjölbýlis-, par og raðhúsum. Í Garðabæ standa svo yfir framkvæmdir við byggingu 40 íbúða í sex blokkum og er stefnt á að íbúðir í Sjálandshverfinu verði 150.

Gunnar Þorláksson, annar eigenda Byggingarfélags Gunnars og Gylfa, segir í samtali við Morgunblaðið í dag  íbúðirnar verða reistar í áföngum og muni fyrirtækið ekki fara fram úr sér. Ekki megi lesa úr þessari framkvæmdagleði að fasteignamarkaðurinn og verktakabransinn sé að vakna aftur til lífsins á ný.

Skildu eftir sig fjallháar skuldir

Þeir Gunnar og Gylfi voru aðsópsmiklir í byggingageiranum í uppsveiflunni. Verktakafyrirtæki þeirra Bygg vann með Saxhóli, fjárfestingarfélagi Nóatúnsfjölskyldunnar svokölluðu. Saman stofnuðu þau m.a. félagið Saxbygg sem átti 5% hlut í Glitni í gegnum félagið Saxbygg Invest, helmingshlut í Smáralind og fjölmargar fasteignir í Reykjavík. Þegar Saxbygg fór í þrot í maí árið 2009 og Smáralind lenti í höndum Landsbankans námu skuldir félagsins 130 milljörðum króna.

Gylfi og Gunnar áttu jafnframt eignarhaldsfélagið CDG. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í fyrravor og námu skuldir þess 16 milljörðum króna. Skiptum lauk í október í fyrra og fengust 230 milljónir króna upp í kröfur eða 1,4%. Kröfuhafar félagsins þurftu því að afskrifa nær allar kröfur sínar.