Gunnar Valur Gíslason hefur tekið við starfi forstjóra byggingarfyrirtækisins Eyktar ehf. af Pétri Guðmundssyni, eiganda fyrirtækisins. Gunnar Valur, sem er verkfræðingur að mennt með Diplom-gráðu frá Þýskalandi, lét nýverið af starfi sem bæjarstjóri á Álftanesi eftir 13 ára starf.

Pétur Guðmundsson, sem verið hefur forstjóri Eyktar ehf. frá stofnun fyrirtækisins árið 1986, mun áfram gegna stjórnarformennsku í fyrirtækinu.
Eykt ehf. er meðal stærstu verktakafyrirtækja landsins með um 200 starfsmenn. Auk þess er félagið með fjölda undirverktaka á sínum vegum.
Helstu verkefni Eyktar ehf. um þessar mundir eru Höfðatorg, búðar- og atvinnubyggð sem Eykt ehf. er að byggja á 2.5 hektara lóð sem afmarkast af Borgartúni, Höfðatúni, Skúlagötu og Skúlatúni; bygging Reykjanesvirkjunar fyrir Hitaveitu Suððurnesja hf., stækkun Menntaskólans við Hamrahlíð, stækkun höfuðstöðva KB-Banka við Borgartún, brúargerð á Hringbraut og Vesturlandsvegi og stækkun Laugardalshallarinnar.
Auk þess er Eykt ehf. með um 80 íbúðir í byggingu í Norðlingaholti og rúmlega 60 íbúðir í undirbúningi á Norðurbakkanum í Hafnarfirði.