*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 25. október 2018 15:51

Gylfi gagnrýndi Vinstri Græna

Fráfarandi forseti ASÍ segir rót réttlátrar reiði tekjulágra að ríkið og sjálftökulið hafi hirt lífskjarabætur hækkunar lægstu launa.

Ritstjórn
Gylfi Arnbjörnsson fráfarandi forseti ASÍ setti þing sambandsins á Reykjavík Hotel Nordica sem nú stendur yfir.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Arnbjörnsson fráfarandi forseti Alþýðusambands Íslands minntist þess í setningarræðu þings sambandsins í gær að hann hefði tekið við stöðunni fyrir tíu árum, sama dag og stjórnvöld sóttu um neyðaraðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sagði Gylfi að þá þegar eldarnir fóru að loga á Austurvelli hafi ekki einungis heimili og efnahagur félaga í sambandinu hrunið „í október 2008 heldur hrundi að mörgu leiti íslenskt samfélag sem verið hafði í greipum frjálshyggjunnar um árabil.“

Í ræðunni fór hann yfir söguna, ástæður þess að Salek samkomulagið náðist ekki sem og þann árangur sem þó náðist þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

„Og höfum þá í huga að mesti árangurinn og stærstu sigrarnir hafa ekki einungis unnist með verkföllum heldur með átakalausum kjarasamningum, sem lokið er á breiðum grundvelli í kjölfar lýðræðislegs og einlægs samráðs og samstarfs við undirbúning og gerð kjarasamninga,“ sagði Gylfi sem gagnrýndi stjórnvöld harðlega fyrir að ganga á bak orða sinna ítrekað í kjölfar kjarasamninga.

Rót reiðinnar skerðingar og sjálftaka

Sagði hann rót reiðinnar í verkalýðshreyfingunni vera að þrátt fyrir árangur í baráttu fyrir hækkun lægstu launa hafi það ekki leitt til bættra lífskjara þeirra hópa.

„Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi á undanförnum árum hirt lungann af þeim ávinningi sem kjarasamningar hafa tryggt þeim tekjulægstu.

Við erum að tala um skerðingu skattleysismarka, lækkun barnabóta, lækkun vaxta- og húsnæðisbóta á sama tíma og stjórnvöld hafa vanrækt hlutverk sitt á húsnæðismarkaði og fasteignaverð og húsaleiga hækkar upp úr öllu valdi.

Fólk veigrar sér við að leita læknis vegna hárrar gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Skerðingar á greiðslum almannatrygginga með miklum tekjutengingum gagnvart greiðslum lífeyrissjóðanna eru enn eitt dæmið um hvernig ríkið hefur höggvið þar sem hlífa skyldi.

Til viðbótar kemur síðan skefjalaus sjálftaka ofurlaunaaðalsins á svimandi launahækkunum sem magnar hina réttlátu reiði enn frekar. Stjórnmálamenn bera á þessu fulla ábyrgð. Krafan um að þeir og dekurbörnin þeirra deili kjörum með þjóðinni er krafa um réttlæti og jöfnuð,“ sagði Gylfi m.a. í ræðunni.

Vinstri græn ekki tilbúin

„Til þess að bíta höfuðið af skömminni lét ríkisstjórnin síðan ólöglegar niðurstöður Kjararáðs standa og heyktist við að taka til baka ofurhækkanir stjórnmálamanna og æðstu embættismanna.

Tillaga ASÍ var samstaða allra um nýjan þjóðarsáttmála, þar sem auknum tekjum ríkis og sveitarfélaga af hagvexti yrði varið til eflingar velferðar- og félagsmála. Því miður var ríkisstjórnin, undir forsæti Vinstri Grænna, ekki tilbúin til þess þessa verks og því var miðstjórn ASÍ nauðugur sá kostur að hafna þátttöku í þjóðhagsráði sem átti að vera samráðsvettvangur aðila til þess að tryggja hér efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.“

Beðin að halda sig fjarri

Segir Gylfi að ekkert samfélag og engin verkalýðshreyfing hafi staðið frammi fyrir öðrum eins aðstæðum og þeim sem sköpuðust við efnahagshrunið. Þar sem þúsundir stóðu skyndilega frammi fyrir eignatapi og fordæmalausri kaupmáttarskerðingu, atvinnuleysi aldrei vaxið jafn hratt.

„Það er alveg ljóst að við deildum þá og deilum að sumu leiti enn kæru félagar um það hvort Alþýðusambandið hafi risið undir hlutverki sínu og sitt kann hverjum að finnast um það,“ segir Gylfi sem fer yfir viðbragð sambandsins við aðstæðunum í ræðu sinni.

Meðal annars segir hann að Hörður Torfason og félagar sem hafi staðið fyrir mótmælunum á Austurvelli hafi beðið samtökin að halda sig fjarri þeim.

Sagði hann þetta meðal annars í samhengi við það að haldið hafi verið fram að samtökin hafi ekki nýtt afl sitt eftir hrun. Í því samhengi listaði hann upp dæmi um hvað samtökin hafi náð að hrinda í framkvæmd í samstarfi við stjórnvöld og atvinnurekendur.

Meðal atriða sem hann nefndi þar er lenging bótatímabils atvinnuleysis, 110% leiðin, endurreisn félagslegs húsnæðiskerfis og að jafna skyldi ávinnslu lífeyrisréttinda milli almenna- og opinbera markaðarins.