Gylfi Magnússon, nýskipaður viðskiptaráðherra sagði ekki af sér stjórnarformennsku Samkeppniseftirlitsins þegar hann tók við ráðherraembætti í gær heldur bað hann um leyfi frá störfum á meðan hann gegnir ráðherraembætti.

Fyrr í dag birti Viðskiptablaðið frétt þess efnis að Gylfi hefði sagt af sér stjórnarformennsku og var sú frétt byggð á upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu.

Nú hefur hins vegar fengist staðfest að Gylfi hafi aðeins beðið um leyfi frá störfum á meðan hann gegnir ráðherraembætti en Jóhann R. Benediktsson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum situr nú sem starfandi stjórnarformaður stofnunarinnar.

Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi viðskiptaráðuneytisins segir að enn eigi eftir að koma í ljós hvort ný stjórn verði skipuð, hvort Jóhann muni gegna stjórnarformennsku áfram eða hvort að Gylfi muni verða stjórnarformaður á ný þegar hann stígur úr stól viðskiptaráðherra.

Samkeppniseftirlitið heyrir undir viðskiptaráðuneytið.

Uppfærð frétt – fyrst birt kl. 14:07