Byggingafélag Gylfa og Gunnars (BYGG) hagnaðist um 614,5 milljónir króna á síðasta ári. Það er meira en fimmföldun frá árinu 2013, þegar hagnaðurinn var 115 milljónir. Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust um 77% og námu 5,9 milljörðum króna á síðasta ári. EBITDA fyrirtækisins var 1,5 milljarður króna árið 2014, borið saman við rúmlega milljarð árið 2013.

Eignir BYGG námu 12,6 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið féð 1,2 milljörðum. Þeir Gunnar Þorláksson og Gylfi Ómar Héðinsson eiga hvor um sig helmingshlut í fyrirtækinu.

Þrátt fyrir vaxandi hagnað var handbært fé frá rekstri BYGG neikvætt á síðasta ári um 168 milljónir króna. Það er viðsnúningur frá árinu 2013, þegar handbært fé frá rekstri var 671 milljón króna. Viðsnúningurinn skýrist að mestu leyti af því að fyrirtækið greiddi niður skammtímaskuldir og fjárfesti í birgðum fyrir samtals 1,8 milljarða á síðasta ári.