Þróun landsframleiðslu á yfirstandandi ári ber með sér að toppi hagsveiflunnar er náð og framundan er hægari hagvöxtur. Innflutningur hefur vaxið mun hraðar en útflutningur það sem af er ári, og einkaneysla dregur í vaxandi mæli vagninn hvað hagvöxt varðar að því er kemur fram í greiningu Íslandsbanka. Framlag ferðaþjónustu til hagvaxtar minnkar jafnt og þétt eftir því sem dregur úr fjölgun ferðamanna hingað til lands. Hagvöxturinn sem var 3,1% á 3. ársfjórðungi 2017 er því minni og byggir á veikari grunni að meti greiningar Íslandsbanka þar sem hann er að miklu leyti knúinn af vexti einkaneyslu.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var hagvöxtur 4,3% á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Er það aðeins ríflega helmingur hagvaxtarhraðans á síðasta ári (7,4%).

Greining Íslandsbanka segir þó að rétt sé að halda til haga að ofangreind þróun sé fremur til marks um aðlögun þjóðarbúsins eftir afar myndarlegt vaxtarskeið en bakslag í einhverjum skilningi. „Hagvöxtur er enn allmyndarlegur í alþjóðlegum samanburði, og fá merki eru um ójafnvægi og óstöðugleika af því tagi sem ógnað gæti vaxtarhorfum hagtkerfisins til meðallangs tíma. Íslenskt hagkerfi hefur dafnað afar vel síðustu misserin. Verkefni komandi fjórðunga verður væntanlega fyrst og fremst að varðveita þann árangur sem þegar hefur náðst og aðlaga atvinnulíf og innviði að hóflegri og stöðugari vexti til framtíðar.“