Útflutningur Kínverja eykst enn en þó mun hægar en áður. Í október jókst útflutningur frá þessu fjölmennasta landi heims um 15,9% á milli ára samkvæmt nýjum tölum frá yfirvöldum þar í landi sem BBC vitnar í. Í september jókst útflutningur um 17,9% á milli ára og í ágúst um 24,5% á milli ára.

Fram kemur í frétt BBC að þetta skýrist öðru fremur af minnkandi eftirspurn eftir kínverskum útflutningsvörum og þá öðru fremur frá Evrópu pg Bandaríkjunum en þetta eru mikilvægustu útflutningsmarkaðir landsins. Sem kunnugt er þjást báðir þessir markaðir af efnahagshrolli. Veldur það mörgum áhyggjum af framtíð kínverska efnahagsundursins en vöxtur hagkerfisins þar í landi stafar að stórum hluta af útflutningi.

Enginn skortur virðist þó vera á innlendri eftirspurn í Kína en innflutningur í landinu jókst um tæp 28% og varð um 17 milljarða dala afgangur af vöruskiptum.