Heimsmarkaðsverð á gulli er í hæstu hæðum um þessar mundir, að nafngildi, og hefur gullverð hækkað ört það sem af er ágústmánuði. Ástæður þess má að sjálfsögðu rekja til mikils taugatitrings á fjármálamörkuðum heimsins en eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu á undanförnum vikum ríkir nú mikil óvissa um framtíð evrunnar auk þess sem deilur á Bandaríkjaþingi um skuldaþak ríkissjóðs landsins og lækkun á lánshæfi Bandaríkjanna í kjölfarið hafa gert sitt til þess að magna titringinn. Það er gömul saga og ný að þegar harðnar á dalnum á fjármálamörkuðum leita fjárfestar jafnan yfir í gull, og bandarísk ríkisskuldabréf, enda eru þessir eignaflokkar jafnan taldir öruggir.

Þannig tærist gull lítið sem ekkert og eftir því er nokkuð stöðug eftirspurn sem veldur því að verð á málminum góða er yfirleitt frekar stöðugt. Þó má ætla að eftir því sem frá líður muni gullverð veikjast eitthvað en enn er of snemmt að fullyrða eitthvað í þá átt.

2,6 milljarðar á árinu

Segja má að þróun undanfarinna vikna hafi komið sér ágætlega fyrir ríkissjóð Íslands enda hækkar verðmæti gullforða Seðlabankans um leið og heimsmarkaðsverð á gulli hækkar. Seðlabankinn á 64 þúsund góðmálmaúnsur (e. troy oz) eða jafngildi tæpra tveggja tonna. Venjuleg únsa er 28 grömm en góðmálmaúnsa er 31,1 gramm af gulli. Til gullforðans telst allt það gull sem er í eigu Seðlabankans og hann hefur aðgang að án allra tafa og kvaða. Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu fyrr á þessu ári er forðinn geymdur í London.

Samkvæmt nýlegu yfirliti bankans yfir gjaldeyrisforðann og einstaka liði hans var verðmæti gullforðans í lok júlímánaðar 12 milljarðar króna og 40 milljónum betur. Síðan þá hefur heimsmarkaðsverð á gulli hækkað um 9,4%; í lok júlí kostaði únsan af gulli 1.629,1 Bandaríkjadal en við lokun markaðar á þriðjudag kostaði hún 1.782,5 dali. Fyrir vikið hefur verðmæti gullforðans hækkað um 970 milljónir króna og er það nú komið yfir 13 milljarða markið.Þessu til samanburðar má nefna að um áramótin var verðmæti gullforðans 10,4 milljarðar og hefur verðmæti gullforðans því hækkað um 2,6 milljarða það sem af er ári.

Rétt er að geta þess að hér er um óinnleysta verðmætaaukningu að ræða og því má ætla að hún gangi að einhverju leyti til baka þegar fram líða stundir enda er allt í heiminum hverfult. Glöggir lesendur sjá það ef til vill að misræmis gætir í verðmætisaukningu gullforðans annars vegar og hækkunar á heimsmarkaðsverði gulls hins vegar. Þetta stafar af því að verðmætið er umreiknað úr dollurum í íslenskar krónur en það sem af er ágústmánuði hefur krónan styrkst um 1,6% gagnvart dollar. Hefði gengi dollars verið óbreytt væri verðmæti gullforðans 220 milljónum króna meira en raun ber vitni.