Einstaklingar höfðu að meðaltali 5,4 milljónir króna í árstekjur árið 2015, eða sem nemur 450 þúsund krónum á mánuði.

Miðgildi heildartekna nam um 4,3 milljónum króna eða um 360 þúsund krónum á mánuði, en það hækkaði um 6,4% á milli ára og um 63,3% yfir síðasta aldarfjórðung, sé miðað við fast verðlag ársins 2015.

Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar , en miðgildi þýðir að jafnmargir einstaklingar eru með laun fyrir ofan og fyrir neðan 360 þúsund krónur á mánuði.

Heildartekjur hæstar í Garðabæ og Skorradalshreppi

Hæstar voru heildartekjurnar í Garðabæ og Skorradalshreppi, eða um 4,9 milljónir króna, síðan kemur Seltjarnarnes og loks Fjarðarbyggð með um 4,8 milljónir króna.

Hafa verður í huga að einungis 29 einstaklingar stóðu að baki þessu meðaltali í Skorradalshreppi, en hækkunin yfir síðasta aldarfjórðung var mest í Skorradalshreppi eða um 93%.

Þar á eftir var hækkunin mest í Hvalfjarðarsveit þar sem hún var 85% og í Tjörneshreppi þar sem hún var 84% sé miðað við fast verðlag 2015.

Minnst hækkun í Tálknafjarðarhreppi

Minnsta breytingin var hins vegar í Tálknafjarðarhreppi þar sem heildartekjurnar einstaklinga jukust um 23% yfir aldarfjórðunginn.

„Heildartekjur eru samsettar af atvinnutekjum (launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur), fjármagnstekjum og öðrum tekjum. Í heildartekjum vega atvinnutekjur langtum mest, þá aðrar tekjur og síðan fjármagnstekjur,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Ef aðeins eru skoðaðar atvinnutekjurnar, þá voru þær hæstar í Fjarðarbyggð árið 2015, eða um 5,0 milljónir króna, í Garðabæ voru þær 4,8 milljónir og í Kópavogi um 4,7 milljónir.

Atvinnutekjur voru hins vegar lægstar í Helgafellssveit eða um 1,7 milljónir króna og Svalbarðshreppi og Húnavatnshreppi um 2,3 milljónir króna.