Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarin misseri og spá sérfræðingar áframhaldandi hækkun. Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Reykjavík Economics, sem kynnt var fyrir skömmu, kom fram að frá mars 2013 til mars 2014 hefði fasteignaverð hækkað um 8,7% að raungildi „og hefur 12 mánaða raunhækkun ekki verið hærri frá því í október 2007 þegar íbúðamarkaðurinn hækkaði um 11,7% að raungildi. Það var á hátindi húsnæðisbólunnar.“ Viðskiptablaðið spurði Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, hvort hún teldi hættu  að hér væri að myndast fasteignabóla:

„Fasteignaverð hefur verið að leiðrétta sig eftir samdráttarskeið síðustu ára,“ segir hún í skriflegu svari til blaðsins. „Hins vegar er hætta á að bólur myndist í lokuðu hagkerfi, þegar fjárfestar hafa mikla fjármuni en fá tækifæri til fjárfestinga. Það er hætta á að slíkt geti gerst á íslenskum húsnæðismarkaði og því er mikilvægt að stjórnvöld hugi vel að þróuninni á markaðnum.“

Í skýrslu Reykjavík Economics er einnig bent á að það sé skylda stjórnvalda að fylgjast vel með íbúðamarkaðnum og bregðast við ef bóluáhrifa verður vart. Eygló segir að lögum samkvæmt sé Íbúðalánasjóði gert að fylgjast með íbúðaþörf í landinu og áætlanagerð sveitarfélaga um þörf fyrir íbúðarhúsnæði.

„Að undanförnu hefur á vegum sérstakrar verkefnastjórnar, sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði til að gera tillögur um framtíðarskipan húsnæðismála, veriðunnið að ítarlegri skýrslugerð um margvíslega þætti húsnæðismála,“ segir í svari Eyglóar. „Ein tillaga verkefnisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að upplýsingaöflun á sviði húsnæðismála verði efld verulega í nýrri húsnæðisstofnun sem taki við því verkefni sem Íbúðalánasjóður hefur sinnt til þessa og tel ég það mjög nauðsynlegt vegna mikilvægi húsnæðismarkaðarins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .