Forstjórar tveggja stærstu flugfélaga Evrópu búast við því að eftirspurn eftir flugi muni ná jafnvægi á næstu vikum og að bókanir muni ná sér á strik fyrir komandi sumar. Töluverður samdráttur hefur verið í eftirspurn eftir flugi á síðustu misserum í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í frétt Reutres

Forstjórar stærstu flugfélaga Evrópu komu saman á ráðstefnu í Brussel í dag en útbreiðsla kórónuveirunnar hefur leitt til þess að fjölda fluga hafa verið felld niður.

Fram kom í máli Michael O‘Leary, forstjóra írska lágfargjaldaflugfélagsins Ryanair að verulega muni draga úr bókunum næstu tvær til þrjár vikur en ef að ástandið breytist til batnaðar fyrir páska muni ferðalangar í miklu mæli fara að leggja áherslu á ferðalög sín í sumar.

Willie Walsh, forstjóri IAG, móðurfélags British Airways og Iberia, tók í sama streng en hann segir að eftirspurn muni ná jafnvægi svo lengi sem þróunin í Evrópu verði sú sama og í Asíu þar sem dregið hefur úr nýjum greindum tilfellum veirunnar.