Sannkallað vínkælaæði virðist hafa gripið landsmenn á faraldurstímum, a.m.k. ef rýnt er í sölutölur Bako Ísberg. Að sögn Bjarna Ákasonar, framkvæmdastjóra og eiganda félagsins, bendir allt til þess að um 500 vínkælar verði seldir á þessu ári, en í fyrra seldust 300 slíkir.

Bjarni segir einstaklinga að mestu leyti standa undir vínkælasölunni, en einnig fyrirtæki á veitingamarkaði. „Það er oft þannig að einn í vinahópnum kaupir vínkæli og þá fer snjóboltinn af stað. Skömmu síðar er svo allur hópurinn búinn að kaupa sér vínkæli," segir Bjarni og nefnir dæmi um kosti sem vínkælar búa yfir. „Þeir gera fólki kleift að drekka vín við rétt hitastig, sem er mjög mikilvægt. Svo er ekki síður mikilvægt þegar geyma á gæða vín í nokkur ár, að þau séu geymd við rétt skilyrði."

Hann kveðst hafa orðið var við aukinn áhuga landsmanna á víni og vínmenningu á undanförnum árum. „Ég hef horft mikið til vínmarkaðar, en markaðurinn utan um vörur sem tengjast víni hafði verið svolítið sveltur á Íslandi um langt skeið. Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið aftarlega á merinni hvað vínmenningu varðar en við höfum þroskast hratt undanfarið."

Bjarni segir fleiri vörur sem tengjast vínum einnig hafa selst mjög vel undanfarin misseri. „Við höfum t.d. lagt upp úr því að benda fólki á mikilvægi þess að drekka vín úr viðeigandi glasi. Það er t.d. allt önnur og ánægjulegri upplifun að drekka kampavín úr glasi með stærri belg heldur en úr svokölluð flautuglasi, sem oftar en ekki eru notuð undir kampavín." Þá hafi vinsældir kampavínssverða einnig komið skemmtilega á óvart. „Fólk er að „sabera" alveg á fullu," segir Bjarni kíminn, og vísar þar til ákveðinnar aðferðar sem stundum er beitt við opnun kampavínsflaska og kampavínssverð koma við sögu.

Hunang fari að drjúpa af hverju strái

Bako Ísberg hefur um langt skeið þjónustað veitingageirann ásamt því að bjóða upp á heildarlausnir fyrir stóreldhús fyrirtækja, stofnana og veitingastaða. Covid-19 faraldurinn hefur leikið veitingageirann grátt og segir Bjarni ekkert launungarmál að það hafi bitnað á Bako Ísberg. „Í fyrra dróst sala okkar til fyrirtækja í veitingageiranum saman um 40%, vegna áhrifa faraldursins á geirann. Ástandið hefur þó farið skánandi á þessu ári og stefnir í að sala til fyrirtækja í veitingageiranum aukist um 20% frá fyrra ári."

Áður en Bjarni tók við stjórnartaumum félagsins einblíndi það nær eingöngu á fyrirtækjamarkað og aðallega veitingageirann. „Þar af leiðandi sveiflaðist gengi Bako Ísberg mikið eftir ástandi þessa geira hverju sinni," bendir Bjarni á. Í viðleitni til þess að jafna þetta út ákvað Bjarni því að einblína einnig á einstaklingsmarkaðinn. „Það hefur reynst farsæl ákvörðun, ekki síst eftir að faraldurinn skall á."

Bjarni segir fínan stíganda hafa verið í rekstrinum undanfarið og því horfi hann björtum augum til framtíðar. „Ég er viss um að 2022 verði mjög gott ár. Það lítur út fyrir að mikið verði fjárfest í þessum stóreldhúsageira á næsta ári. Það hefur myndast uppsöfnuð endurnýjunarþörf innan geirans og kominn tími til að endurnýja ýmis tæki og tól. Það styttist því í að hunang drjúpi af hverju strái," segir hann glettinn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ef áætlanir Alvotech um vöxt ganga eftir verður félagið með þeim verðmætustu á Íslandi.
  • Úttekt á breytingum á vaxtakjörum bankanna.
  • Sagt frá umtalsverðri uppbyggingu atvinnuhúsnæðis við Skógarlind í Kópvogi.
  • 10 milljarða framtakssjóður hefur gengið frá kaupum á rótgrónu upplýsingafyrirtæki.
  • Umfjöllun um kaup erlendra fjárfesta á innviðum íslenskra fjarskiptafélaga.
  • Salt Pay réðist nýlega í hlutafjáraukningu.
  • Fjallað um Maven, nýtt upplýstingatæknifélag.
  • Rætt við Búa Örlygsson, nýjan forstöðumann eignastýringar Landsbankans og formann Stangaveiðifélags Akraness.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um dýrt spaug RÚV.
  • Óðinn skrifar um Stefán Ólafsson, barnabætur og bull.