Nýverið skrifuðu Jóhann Gunnar Stefánsson framkvæmdastjóri Háfells og Stefan Bohn verkefnisstjóri framkvæmdadeildar Bauhaus AG undir samstarfssamning um jarðvinnu vegna væntanlegrar stórbyggingar Bauhaus á lóð þeirra við Lambahagaveg 2-4 undir Úlfarsfelli í Reykjavík.

Skarphéðinn Ómarsson forstjóri Háfells sagði í samtali við vb.is að ,,kostnaðurinn við verkið væri trúnaðarmál og því ekki gefinn upp. Verkefnið sem slíkt er í meðallagi stórt þrátt fyrir að grunnurinn sé með þeim stærri og samkvæmt samningnum eigum við að klára hann á 16- 18 vikum,” sagði Skarphéðinn.

Um er að ræða alla jarðvinnu fyrir 21.500 m2 byggingavöruverslun sem þarna mun rísa auk jarðvinnu við lóðina sem er um 41.000 m2.

Vinna Háfells felst í að grafa og flytja í burtu allt óburðarhæft efni, sprengja klöpp og fylla undir hús og bílastæði. Áætlað er að vinnu Háfells ljúki í febrúar 2008.

Helstu magntölur eru áætlaðar:

Sprengingar og fleygun       78.500 m3

Brottflutt efni                    90.000 m3

Fyllingar                          106.000 m3

Háfell hefur unnið að miklum framkvæmdum við gatnagerð og lagnir á þessu nýja atvinnusvæði undir Úlfarsfelli. Verkefnastjóri er Valgeir Bergmann og verkstjóri Jón Oddur Jónsson.