Rekstrarafgangur A og B-hluta ársreiknings Hafnafjarðarkaupstaðar nam 1.326 milljónum króna á síðasta ári en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 554 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða ársins fyrir A-hluta var jákvæð um 740 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 45 milljónir króna.

Skuldaviðmið sveitarfélagsins er jafnframt komið í 135%, sem er vel niður fyrir viðmið eftirlitsnefndar, sem er 150%, en skuldahlutfallið fyrir A- og B-hluta er komið í 159%. Rekstrarafgangur fyrir A- og B-hluta nam 1.326 milljónum króna og veltufé frá rekstri var 3.646 milljónir króna, sem samsvarar 14,4% af heildartekjum.

Sveitarfélagið tók engin lán á árinu 2017, annað árið í röð og langtímaskuldir voru greiddar niður um 300 milljónir króna umfram gjaldfallnar afborganir á árinu. Framkvæmdir standa yfir við nýjan grunn-, leik- og tónlistarskóla í Skarðshlíð, fyrir 466 milljónir króna, nýtt æfinga- og kennsluhúsnæði hjá Haukum, fyrir 241 milljón, og nýtt hjúkrunarheimili við Sólvang fyrir 511 milljónir o.s.frv.

Skatttekjur tæplega hálfum milljarði umfram áætlun

Helstu frávik áætlunum voru að skatttekjur voru 477 milljónum króna hærri en áætlun gerðu ráð fyrir, framlög jöfnunarsjóðs voru 309 milljónir króna umfram áætlun og aðrar tekjur voru 321 milljónir króna umfram áætlun.

Auk þess var tekjufært vegna seldra lóða um 336 milljónir króna. Breyting á lífeyrisskuldbindingu var 1.047 milljónum krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir en þar munaði mestu um 677 milljóna króna gjaldfærslu vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.

Laun og launatengd gjöld voru á áætlun og annar rekstrarkostnaður var 184 milljón krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Fjármagnsliðir voru um 580 milljónum krónum lægri en áætlun gerði ráð fyrir vegna lægri verðbóta og niðurgreiðslu skulda.
Veltufé frá rekstri nam 3.646 milljónum króna eða 14,4% af heildartekjum.

1,6 milljarðar í langtímaskuldir

Greiðslur langtímaskulda námu alls 1,6 milljarði króna eða um 300 milljónir króna umfram afborganir samkvæmt lánasamningum.
Fjárfestingar á árinu 2017 námu 3.305 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 3.816 milljónum króna.

Langtímaskuldir lækkuðu um 1.203 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 988 milljónir króna og skammtímaskuldir hækkuðu um 1.283 milljónir króna en munar þar mestu um uppgjör við Brú lífeyrisjóð er nam 677 milljónum króna og hækkun lánardrottna vegna framkvæmdasamninga um 364 milljónir króna.

Rúmlega 1,3 milljarðar í gatnagerð

Kaupverð íbúða félagsþjónustu nam 257 milljónum króna, kaup á húsnæði skattstofunnar sem hugsað er undir starfsemi Félagsþjónustu nam 259 milljónum króna og kaup á St. Jósepsspítala nam 106 milljónum króna. Framkvæmdir við gatnagerð námu 1.343 milljónum króna en tekjur vegna gatnagerðagjalda og byggingaréttar námu 1.415 milljónum króna.

Gatnagerðagjöld færð til lækkunar á framkvæmdakostnaði þar til verki lýkur námu 1.079 milljónum króna en tekjufærð gatnagerðargjöld námu 336 milljónum króna. Heildareignir í lok árs námu samtals 51.173 milljónum króna og hafa þær hækkað um 2.871 milljónir milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 40.187 milljónum króna og hafa hækkað um 1.030 milljónir króna á milli.

Íbúum fjölgaði um 2,4%

Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar segir rekstrarafkomuna hafa farið fram úr björtustu vonum, en íbúar Hafnarfjarðar voru 29.360 þann 1. desember 2017 samanborið við 28.678 árið áður sem er íbúafjölgun um 682 eða 2,4%.

„Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar er nú komið niður í 135% sem sýnir að fjárhagur sveitarfélagsins hefur styrkst verulega undanfarin ár. Þá er ánægjulegt að sjá hve mjög fjármagnskostnaður bæjarins lækkar á milli ára og er mikilvægt að sú þróun haldi áfram, enda er peningum bæjarbúa betur varið á flestan annan hátt en í vaxtagjöld,“ segir Rósa.

„Þessi góða rekstrarniðurstaða kemur í kjölfar ítarlegrar endurskipulagningar á rekstrinum og sýnir að með ráðdeild, aga og skynsamlegri fjármálastjórn er hægt að bæta þjónustu við bæjarbúa á sama tíma og fjárhagur bæjarins er efldur til muna.“