Hagnaður íslensku álveranna nam 6,48 milljónum bandaríkjadollara á síðasta ári, en það jafngildir um 798 milljónum íslenskra króna. Samanlagður hagnaður álveranna þriggja dróst því saman um 90% frá árinu 2012, þegar hann nam 64,5 milljónum dollara. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Norðurál hagnaðist mest á síðasta ári af fyrirtækjunum þremur. Það rekur álverið á Grundartanga og nam hagnaðurinn 27,58 milljónum dollara, en var hins vegar 46,57 milljónir dollara árið 2012. Næst á eftir kemur Fjarðaál í Reyðarfirði með 10,69 milljóna dollara hagnað samanborið við hagnað upp á 33,3 milljónir dollara árið 2012. Rio Tinto Alcan, sem rekur álverið í Straumsvík, skilaði hins vegar tapi upp á 31,79 milljónir dollara, en félagið tapaði 15,36 milljónum dollara árið 2012.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, segir í samtali við Fréttablaðið að afkoma fyrirtækisins sé háð markaðsverði á áli. Bendir hann á þá staðreynd að álverð hafi lækkað talsvert á árunum 2012 og 2013. „Álverð hefur nú hækkað og það hefur áhrif á tekjur félagsins. Vonir okkar standa til þess að þessi hækkun á markaðsverði á áli sé komin til að vera og það eru aðrar markaðsforsendur eins og lækkun á álbirgðum í heiminum sem styðja við þetta.“