Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki hafa birt uppgjör sitt vegna þriðja ársfjórðungs. Landsbankinn og Arion banki högnuðust um 4 milljarða króna hvor á fjórðungnum og Íslandsbanki um 3,4 milljarða. Allir bankarnir högnuðust meira á fjórðungnum en á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður Landsbankans jókst um 23% á þriðja ársfjórðungi og Íslandsbanka um 61%, en mest var aukning Arion banka sem ríflega fimmfaldaði hagnað sinn. Vert er að taka það fram að á síðasta ári litaðist uppgjör Arion banka mjög af neikvæðum áhrifum dótturfélaga bankans, sem eru í söluferli og standa því utan reglubundinnar starfsemi bankans.

Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var mest hjá Arion banka, 8,3%, samanborið við 1,6% á sama tímabili árið áður. Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka var 7,4% á fjórðungnum, samanborið við 4,7% árið áður, og 6,5% hjá Landsbankanum, samanborið við 5,4% árið áður.

Virðisrýrnun í faraldri

Bankarnir hafa ekki farið varhluta af kórónukreppunni og ber afkoma bankanna, fyrstu níu mánuði ársins, þess merki. Þannig var afkoma bankanna þriggja neikvæð á fyrsta ársfjórðungi, fyrst og fremst vegna varúðarniðurfærslna útlána vegna faraldursins.

Á öðrum ársfjórðungi var afkoma bankanna þriggja jákvæð, þó að varúðarniðurfærslur settu áfram strik í reikninginn. Á fyrstu níu mánuðum ársins hagnaðist Arion banki mest, um 6,7 milljarða króna, þá Íslandsbanki um 3,2 milljarða og loks Landsbankinn um 699 milljónir.

Útfærslur skekkja samanburð

Arion banki kemur vel út úr samanburðinum fyrstu níu mánuði ársins, með lægsta kostnaðarhlutfallið, mesta afkomu og mesta arðsemi eigin fjár. Róðurinn virðist þyngri hjá Landsbankanum í faraldrinum, með lægsta afkomu og minnsta arðsemi eiginfjár.

Varúðarniðurfærslur vegna faraldursins vega þó þungt í samanburði afkomu og arðsemi eigin fjár bankanna. Hafa ber í huga að bankarnir meta virðisrýrnun á grundvelli ólíkra forsenda.

Þannig eru Landsbankinn og Íslandsbanki með álíka há útlán til ferðaþjónustu, um 100 milljarða króna, en þar af hefur Landsbankinn fært um 8% af kröfuvirði í virðisrýrnunarsjóð, á meðan Íslandsbanki hefur fært um 5%. Þessi munur gæti skýrst af mismunandi útlánagæðum, sem og ólíkum forsendum við mat virðisrýrnunar.

Fari horfur batnandi gæti hluti virðisrýrnunar síðar verið færður til baka og kæmi bönkunum þá til tekna síðar, en fari horfur versnandi gæti aukið kröfuvirði verið fært til virðisrýrnunar síðar meir.

Þannig litast samanburðurinn verulega af þessum matskennda lið, sem ekki endurspeglar raunverulegt útlánatap, og tíminn einn mun leiða í ljós hver raunveruleg áhrif kórónukreppunnar verða á afkomu bankanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .