Hagnaður tölvuleikjaframleiðandans CCP á fyrstu sex mánuðum ársins nam 318.511 dölum, andvirði um 38 milljónum króna, en á sama tímabili í fyrra var 5,9 milljóna dala hagnaður á rekstri fyrirtækisins, sem samsvarar um 710 milljónum króna á gengi dagsins í dag.

Velta jókst úr 32,2 milljónum dala í 36,7 milljónir á milli ára, en rekstrarkostnaður jókst enn meira og fór úr 26,7 milljónum dala í 34,4 milljónir. Munar þar mestu um 4,4 milljóna dala aukningu í rannsóknar- og þróunarkostnaði sem nam 12,8 milljónum dala á fyrri helmingi þessa árs. Almennur kostnaður og stjórnunarkostnaður nam 9,5 milljónum dala í ár, en nam 7,8 milljónum dala á fyrri helmingi ársins 2012.

Tap CCP fyrir skatta nam 1,2 milljón dala, en á fyrri helmingi síðasta árs var hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta rétt tæpar fimm milljónir dala. Heildareignir CCP jukust úr 128,3 milljónum dala í 130,9 milljónir, Eigið fé jókst úr 66,6 milljónum dala í 68,5 milljónir og skuldir jukust úr 61,7 milljónum dala í 62,5 milljónir.

Ekki kemur fram í uppgjörinu hvernig tekjur skiptast á milli leikjanna tveggja, en skotleikurinn Dust 514 var formlega gefinn út þann 14. maí og áhrif hans á uppgjörið því væntanlega takmörkuð.