Eimskip hagnaðist um 5,5 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 800 milljóna króna, á öðrum ársfjórðungi og jókst hagnaður félagsins um 20,1% milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri Eimskips.

Rekstrartekjur voru 126,6 milljónir evra og jukust um 17,6 milljónir evra eða 16,2% frá sama tíma á síðasta ári. Þá nam EBITDA félagsins 13,3 milljónum evra og jókst um 20,4% milli ára.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 6,9% frá öðrum ársfjórðungi í fyrra. Þá jókst flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun um 20,5% milli ára. Eiginfjárhlutfall Eimskips var 61,3% í lok tímabilsins og nettóskuldir námu 40 milljónum evra í lok júní.

Félagið hefur endurskoðað áætlaða EBITDA ársins og er hún nú á bilinu 41 til 45 milljónir evra í stað þess að vera á bilinu 39 til 33 milljónir evra eins og kynnt var í febrúarmánuði.

„Rekstrartekjur og EBITDA á öðrum ársfjórðungi 2015 eru þær hæstu á einum ársfjórðungi frá endurskipulagningu félagsins árið 2009. Rekstrartekjur jukust um 16,2% frá öðrum ársfjórðungi á fyrra ári og EBITDA nam 13,3 milljónum evra sem er 20,4% hækkun frá árinu 2014. Hagnaður eftir skatta nam 5,5 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 4,6 milljónir evra á sama tímabili í fyrra sem er 20,1% hækkun.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 6,9% á öðrum ársfjórðungi, en mikill vöxtur var í flutningum til og frá Íslandi. Einnig var vöxtur í flutningum í Noregi á öðrum ársfjórðungi eins og við reiknuðum með eftir mjög erfiðan fyrsta ársfjórðung þar sem veðurfar og aflabrestur höfðu mikil áhrif. Flutningar til og frá Færeyjum drógust lítillega saman. Flutt magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 20,5% á öðrum ársfjórðungi, aðallega vegna aukinna umsvifa á Nýfundnalandi og í Hollandi," segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.