Verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir hagnaðist um 526 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 177 milljónir árið 2020. Arðsemi eigna nam 65,7% á síðasta ári sem var metár hjá félaginu, bæði hvað varðar afkomu og þóknanatekjur.

Þóknanatekjur Fossa jukust úr 902 milljónum í 1.517 milljónir á milli ára. Til samanburðar þá fóru þóknanatekjur félagsins fyrst yfir milljarð króna á árinu 2019 þegar þær námu alls 1.028 milljónum króna. Ársverk voru 16,2 og laun og launatengd gjöld námu nærri 350 milljónum króna.

Eignir verðbréfafyrirtækisins námu 1.032 milljónum í árslok 2021 og eigið fé var um 775 milljónir. Í skýrslu stjórnar er ekki tekið fram hversu há arðgreiðsla verður lögð til á aðalfundi félagsins en undanfarin ár hefur arðurinn verið sambærilegur afkomu félagsins.

Í árslok 2021 voru stærstu hluthafar Fossa Markaða Sigurbjörn Þorkelsson, Aðalheiður Magnúsdóttur, Haraldur I. Þórðarson og Steingrímur Arnar Finnsson.