Hagnaður verslunarinnar Garðheima nam 26 milljónum króna í fyrra og dróst saman um 40% milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjurnar námu 961 milljón króna í fyrra og hækkuðu um tæp 2%, en rekstrargjöld hækkuðu um tæp 5% og námu 921 milljón.

Eignir drógust lítillega saman og námu 242 milljónum, en skuldir lækkuðu um tæpan fimmtung og námu 148 milljónum. Eigið fé nam því 94 milljónum og hækkaði um 39% milli ára, og eiginfjárhlutfall nam einnig 39% og hækkaði um 12 prósentustig. Arðsemi eiginfjár nam 33%.

Launagreiðslur námu 214 milljónum og hækkuðu um 5% milli ára. Ársverk voru 43 og meðallaun því 415 þúsund krónur á mánuði.

Fyrirtækið er í eigu hjónanna Gísla Hinriks Sigurðssonar og Jónínu Sigríðar Lárusdóttur, og barnanna þeirra, og hefur verið starfandi í núverandi mynd frá 1991.