Iceland Seafood International (ISI) hagnaðist um 720 þúsund evrur á öðrum ársfjórðungi, sem samsvarar um 107 milljónum íslenskra króna, en á sama tímabili fyrir ári tapaði félagið 539 þúsund evrum.

Velta félagsins nam 104 milljónum evra á fjórðungnum að frádreginni sölu innan samstæðu, í samanburði við 75 milljóna evra veltu á sama tímabili ári fyrr. Rekstrarhagnaður nam 1,3 milljónum evra, samanborið við 710 milljónir ári fyrr.

Alls nam velta félagsins 208,3 milljónum evra á fyrri árshelmingi og jókst um 15% frá sama tímabili á fyrra ári. Hagnaður félagsins af venjulegum rekstri á helmingnum nam 3,7 milljónum evra, samanborið við um 2 milljónir evra á sama tímabili á síðasta ári. Fyrir skatt nam hagnaðurinn 4,8 milljónum evra á helmingnum í ár en 2,6 milljónum ári fyrr.

Samkvæmt IFRS stöðlum þar sem tekið er tillit til kostnaðar vegna óreglulegra rekstrarliða nam hagnaður samstæðunnar alls 3,4 milljónum evra á fyrri helming ársins, en á sama tíma á fyrra ári nam hagnaðurinn 1,3 milljónum evra samkvæmt sömu stöðlum.

Eignir námu 249,1 milljón evra í lok júní, 12,3 milljónum evra lægri en í mars. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 31,7%.

Söluvöxtur drifinn af Spáni og Ítalíu

Í tilkynningu með uppgjörinu kemur fram að eftir hæga fyrstu tvo mánuði ársins hafi öflugur vöxtur orðið í sölu í sunnanverðri Evrópu frá því í mars, drifinn af ríkri eftirspurn á Spáni og Ítalíu í kjölfar tilslakana á covid takmörkunum. Samrunaferli í Bretlandi hafi þó reynst flóknari og kostnaðarsamari en vænst var, meðal annars vegna Brexit og faraldursins, en langtímahorfur í þeim efnum séu þó jákvæðar. Þá segir að rekstur vestanhafs verði einfaldaður í kjölfar undirritunar samnings við Villa Seafood Ltd um sölu og dreifingu á íslenskum varningi í Norður-Ameríku.

Fram kemur að óvissa sé enn mikil fyrir seinni helming ársins, bæði vegna faraldursins og ytri þátta á borð við lækkun kvóta og verðþróunar. Röskun í birgðakeðju hafi enn áhrif á flutninga- og birgðakostnað. Að því gefnu að sóttvarnatakmarkanir verði ekki hertar á lykilmörkuðum er gert ráð fyrir að hagnaður af reglulegum rekstri verði á bilinu 12 til 16 milljónir evra á árinu, fyrir skatt, þar sem efri mörk eru lækkuð um 1 milljón evra frá síðustu afkomuspá.