Landsbankinn hagnaðist um 15,5 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 7,5 milljörðum króna sem er svipað og á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar nam hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum síðasta árs 11,9 milljörðum króna og eykst hann því um 3,6 milljarða á milli ára. Steinþór Pálsson bankastjóri segir afkomuna í takt við áætlanir og hagnaðurinn viðunandi.

Fram kemur í uppgjöri Landsbankans að hreinar vaxtatekjur námu tæpum 17 milljörðum króna á fyrri hluta ársins til samanburðar við 18,6 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Hreinar þjónustutekjur námu 3 milljörðum króna og hafa aukist um tæplega einn milljarð frá í fyrra eða um 41%.

Þá segir í uppgjörinu að umtalsverður árangur hafi náðst við lækkun rekstrarkostnaðar í samræmi við markmið bankans. Almenn rekstrargjöld lækka um 4%, laun og tengd gjöld um 5% frá fyrra ári en sú lækkun er að frádreginni gjaldfærslu launa vegna móttöku hlutabréfa frá LBI hf. þar sem sama fjárhæð er einnig færð til tekna í bókhaldi bankans. Að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunlækkun rekstrarkostnaðar verið 7,9%.