Landsbréf, dótturfyrirtæki Landsbankans, hagnaðist um 187 milljónir króna í fyrra. Þetta er 180 milljónum krónum meira en árið 2012 þegar hagnaðurinn nam 7 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að hreinar rekstrartekjur námu 969 milljónum króna borið saman við 443 milljónir árið 2012. Þá nam eigið fé Landsbréfa undir lok síðasta árs 1.644 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 115,5%.

Þá segir í uppgjörinu að síðasta ár einkenndist af mikilli vöruþróun og örum vexti í rekstri.

Í árslok 2013 önnuðust Landsbréf rekstur 34 sjóða og félaga samanborið við 20 í ársbyrjun og nam heildarstærð sjóða í rekstri Landsbréfa ásamt eignum í stýringu um 110 milljörðum kr. í árslok samanborið við um 82 milljónir í ársbyrjun eða sem nemur 33% aukningu á milli ára.  Starfsmenn voru 19 í árslok, en þeir voru 15 í ársbyrjun.

Í uppgjörinu segir ennfremur að skuldabréfasjóðir Landsbréfa  skiluðu góðum árangri á árinu. Sjóðurinn Landsbréf – Sparibréf óverðtryggð var með bestu ávöxtun allra ríkisskuldabréfasjóða á árinu eða 5,1% samkvæmt óháðu vefsíðunni www.sjodir.is. Aðrir skuldabréfasjóðir gáfu einnig góða ávöxtun í samanburði við sambærilegra sjóði hjá samkeppnisaðilum og má þar nefna sérstaklega Landsbréf – Markaðsbréf sem var með hæstu nafnávöxtun allra skuldabréfasjóða á árinu eða 6,1%. Skuldabréfasjóðir félagsins minnkuðu lítilsháttar sem á sér þá skýringu helsta að fjárfestar færðu sig í auknum mæli úr skuldabréfum í hlutabréf á árinu.  Innlendir hlutabréfasjóðir Landsbréfa stækkuðu þannig um 103% á árinu og skiluðu þeir allir góðri ávöxtun.

Umsvif tengd framtaksfjárfestingum aukast

Umsvif tengd framtaksfjárfestingum jukust verulega hjá Landsbréfum á árinu 2013, en þá var lokið við fjármögnun tveggja samlagshlutafélaga á sviði framtaksfjárfestinga. Þar er annars vegar um að ræða Horn II slhf. sem er 8,5 milljarðar króna að stærð og fjárfestir í öllum geirum íslensks atvinnulífs og hins vegar ferðasjóðurinn Landsbréf - ITF I slhf . sem er rúmlega 2 milljarðar króna að stærð, en hann sérhæfir sig í framtaksfjárfestingum í ferðaþjónustu, einkum nýrri afþreyingu fyrir ferðamenn.  Í lok ársins 2013 voru eignir í stýringu hjá Landsbréfum tengdar framtaksfjárfestingum alls 43,5 milljarðar króna. Nýjar eignir í stýringu námu um 10,6 milljörðum króna.