Hagnaður Marel á síðasta ári var 20,6 milljónir evra, eða 3,1 milljarður króna, en hann var 35,6 milljónir evra, eða 5,6 milljarðar króna, á sama tíma árið á undan. Marel birti uppgjör sitt í dag.

Í ársreikningnum kemur fram að tekjur ársins 2013 námu 661,5 milljónum evra en hann var 714 milljónir evra árið á undan. Þetta samsvarar 7,3% samdrátti í tekjum. EBITDA var 69,4 milljónir evra, sem er 10,5% af tekjum samanborið við 86,0 milljónir evra árið 2012. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 42,9 milljónir evra, sem er 6,5% af tekjum samanborið við 61,1 milljón evra árið 2012. Pantanabók stóð í 132,4 milljónum evra í árslok 2013 en var 125,4 milljónir evra árið á undan.

„Marel skilaði 43 milljóna rekstrarhagnaði á síðasta ári sem er ekki í samræmi við samkeppnisstöðu og getu félagsins. Í kjölfar nýlegra breytinga á framkvæmdastjórn Marel höfum við tekið skref í þá átt að einfalda skipulag félagsins og lækka fastan kostnað.  Nýlegar breytingar á skipulagi Marel í kjötiðnaði eru gott dæmi um breytingar til einföldunar þar sem þrjár einingar voru sameinaðar til að nýta betur nýsköpunar- og sölustarfsemi sem nú þegar er þar er til staðar innan félagsins.    Á meðal þeirra eininga var starfssemi Carnitech sem keypt var í fyrra til að styðja við frekari vöxt félagsins,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, meðal annars í tilkynningu frá félaginu sem er hér.