Hagnaður Marels á öðrum ársfjórðungi nam 5,2 milljónum evra, andvirði um 830 milljóna króna, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins sjö milljónum evra. Velta fyrirtækisins dróst saman um 4,3% á fjórðungnum frá sama tímabili í fyrra og nam 178,4 milljónum evra. EBITDA fyrirtækisins jókst hins vegar á milli ára, nam nítján milljónum evra á öðrum ársfjórðungi þessa árs, sem er 10,6% af tekjum, en var 18,6 milljónir evra í fyrra.

Pantanabókin stóð í 131,8 milljónum evra í lok fjórðungsins, samanborið við 182,6 milljónir á sama tíma í fyrra, og hafði lækkað um 13% frá lokum fjórðungsins á undan.

Á fyrri helmingi ársins nam hagnaður Marels eftir skatta 10,9 milljónum evra samanborið við 20,1 milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Velta dróst saman um 9,4% milli ára og nam 336,5 milljónum evra. Rekstrarhagnaður nam 22,6 milljónum evra á fyrri helmingi þessa árs, en var 33,3 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu segir að afkoma Marel á fyrri helmingi ársins 2013 endurspeglar krefjandi markaðsaðstæður og áframhaldandi töf á fjárfestingu á helstu mörkuðum félagsins. Skýr batamerki sjáist í Bandaríkjunum á meðan enn sé lægð á mörkuðum í Evrópu. Mismunandi aðstæður ríki á nýmörkuðum en framtíðarhorfur séu áfram bjartar.