MP banki hagnaðist um rúmar 129,8 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er tæplega 50% minni hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 253,9 milljónum króna. Fram kemur í árshlutauppgjöri MP banka að hagnaður hans á fyrstu níu mánuðum ársins nam 590 milljónum króna borið saman við 372,4 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn var því 58% meiri í ár en í fyrra.

Vaxtatekjur dragast saman á þriðja fjórðungi

Í uppgjöri MP banka segir að rekstrarkostnaður hafi hækkað um 351 milljón króna milli ára eða um 16% sem skýrist einkum af aukinni starfsemi og hærri álögum, en fjársýsluskattur var hækkaður á árinu. Þá voru fjárfestingatekjur og hlutdeildartekjur lægri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra og vaxtatekjur eilítið lægri og þóknanatekjur 23% hærri. Hlutfall vaxta- og þóknanatekna hefur því farið hækkandi og námu þær 87% af hreinum rekstrartekjum fyrstu 9 mánuði ársins. Meðalfjöldi stöðugilda móðurfélagsins var 107 í lok september, samanborið við 96 á sama tíma í fyrra. Þá segir í uppgjörinu á fyrri hluta ársins náðust verulegar endurheimtur á sértækum niðurfærslum. Sú þróun hélt áfram á þriðja ársfjórðungi og er nettó tekjufærsla vegna þeirra 221 milljón króna á fyrstu níu mánuðum ársins.

Fram kemur í uppgjörinu að á þriðja ársfjórðungi námu vaxtatekjur 907,8 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við 856,5 milljónir í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins námu vaxtatekjurnar 2,8 milljörðum króna á þessu ári sem er tæpum 300 milljónum krónum meira en á sama tíma í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur námu 395,7 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi nú borið saman við 452,4 milljónir í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins námu hreinar vaxtatekjur MP banka 1.274 milljónum króna borið saman við 1.303 milljónir í fyrra.

Þá námu hreinar rekstrartekjur 858 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi nú miðað við 980,5 milljónir í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins námu hreinar rekstrartekjur 2.859 milljónum króna á þessu ári borið saman við 2.988 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Minni hagnaður í ár en í fyrra

Hagnaður fyrir skatta nam 110,3 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við 269,7 milljónir í fyrra og var samdrátturinn upp á tæp 60%. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður fyrir skatta 500,8 millj´noum króna borið saman við 469 milljónir á sama tíma í fyrra.

Heildareignir MP banka námu í lok þriðja ársfjórungs 63 milljörðum króna sem er samdráttur frá áramótum. Lausafjárstaða bankans er vel yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans en bankinn hafði 20,4 milljarða króna í handbæru fé eða ígildi þess við lok tímabilsins. Hlutafé bankans var aukið um 300 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og nam eigið fé bankans 6,1 milljarði króna í lok þriðja ársfjórðungs. Eiginfjárhlutfall MP banka hefur hækkað frá áramótum og var 14,2% í lok september en lögboðið lágmark er 8%. Allt eigið fé bankans fellur undir eiginfjárþátt A.