Hagnaður Sjóvár á fyrstu sex mánuðum ársins nam 205 milljónum króna. Þetta er rúmlega 75% minna en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 843 milljónum króna. Hagnaðurinn nú jafngildir 13 aura hagnaði á hlut borið saman við 53 aura hagnað á hlut á sama tíma í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi jókst hagnaðurinn nokkuð á milli ára. Hann fór úr 225 milljónum króna í 329 milljónir.

Fram kemur í uppgjöri Sjóvár að hagnaður fyri skatta og afskriftir óefnislegra eigna nam 487 milljónum króna á fyrri hluta árs miðað við 1.259 milljónir á fyrri hluta síðasta árs. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 503 milljónum króna. Hann var 396 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Í upgjörinu er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvár, að vátryggingareksturinn hafi gengið vel á fyrstu sex mánuðum ársins. Hann vitnar til þess að í skráningarlýsingu fyrirtækisins hafi verið settar fram horfur um afkomu ársins 2014. Þar var gert ráð fyrir að raunvöxtur yrði í iðgjöldum, að samsett hlutfall yrði á bilinu 94-96% og að hagnaður fyrir skatta og afskriftir óefnislegra eigna yrði á bilinu 2,7 til 3,3 milljarðar króna.

„Útlit er fyrir að horfurnar um samsett hlutfall og raunvöxt iðgjalda gangi eftir en þróun verðbréfamarkaða það sem af er ári veldur því að ólíklegt má teljast að hagnaður verði sá sem reiknað var með í lýsingu.“