*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 16. maí 2020 14:57

Hagnaðurinn næstum fjórðungi minni

Landsvirkjun hagnaðist um 4,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi, en greiðir út 10 milljarða í arð. Stórnotendur fá 1,5 milljarða afslátt.

Ritstjórn
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Landsvirkjun hagnaðist um 31,5 milljónir Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur 4,6 milljörðum íslenskra króna, sem er 23,4% samdráttur frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam tæplega 41,2 milljónum dala.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 44,0 milljónum dala, eða sem nemur 6,3 milljörðum króna, en var 50,5 milljónir dala á sama tímabili árið áður og lækkar því um  12,7% milli tímabila.

Rekstrartekjur námu 126,2 milljónum dala, eða sem nemur 17,9 milljarða króna, og lækka um 7,0 milljónir dala, eða 5,3%, frá sama tímabili árið áður. Sala félagsins á raforku drógust saman um 3,4% milli ára, sem og raforkuverð lækkaði. Auk þess fá stórnotendur 1,5 milljarða afslátt af raforkuverði.

Rekstrargjöld félagsins jukust úr 30,7 milljónum dala í 34,2 milljónir dala, eða um 11,3% milli ára. Handbært fé frá rekstri nam 75,4 milljónum dala, eða sem nemur 10,7 milljörðum króna, sem er 10,2% lækkun frá sama tímabili árið áður.

12 milljarðar í framkvæmdir og 10 til ríkisins

Nettó skuldir  Landsvirkjunar lækkuðu um 54,2 milljónir dala, eða 7,7 milljarða króna frá áramótum og voru í lok mars 1.637,3 milljónir dala, eða sem nemur 232,5 milljörðum króna. Eigið fé fyrirtækisins jókst um 1,1% milli ára, og nam 2.260,8 milljónum dala, svo heildareignirnar lækkuðu um 0,9%, og námu 4.342 milljónum dala í lok tímabilsins.

Þar með jóst eiginfjárhlutfallið úr 51% í 52,1%. Félagi hyggst greiða ríkissjóði 10 milljarða króna arð í ár, en auk þess verða 12 milljarðar settir í ýmis konar nýframkvæmdir, endurbætur og viðhald á orkuvinnslusvæðum félagsins.

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar segir afkomuna á fyrsta ársfjórðungi vera vel viðunandi í ljósi krefjandi ytri aðstæðna.

„[E]n sala raforku dróst saman um 3,4% miðað við sama fjórðung í fyrra. Raforkuverð lækkaði einnig í þeim samningum sem eru tengdir álverði eða Nord Pool raforkuverði. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 44 milljónum Bandaríkjadollara, samanborið við 50,5 milljónir á sama tímabili árið áður,“ segir Hörður.

„Áhrif COVID-19  veirufaraldursins á afkomuna eru þó nokkur á fyrsta ársfjórðungi og munu verða enn meiri á næstu mánuðum. Mikilvægasta verkefni Landsvirkjunar á tímum COVID-19 hefur verið að tryggja orkuvinnslu í aflstöðvum og afhendingu rafmagns til viðskiptavina, samhliða því að tryggja heilsu og öryggi starfsmanna.

Fyrirtækið er vel í stakk búið til að fást við þær áskoranir sem framundan eru, eftir mikla niðurgreiðslu skulda á undanförnum árum, og leggja sitt af mörkum til að styðja við samfélagið við þessar erfiðu aðstæður. Nýverið var tilkynnt um 12 milljarða króna framlag til ýmissa nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á orkuvinnslusvæðum á næstu þremur árum, auk þess sem við munum veita tímabundna afslætti af raforkuverði til viðskiptavina meðal stórnotenda að fjárhæð 1,5 milljarða króna.

Þá var einnig tilkynnt um undirbúning rannsókna- og þróunarverkefnis á Suðurlandi og Norðurlandi í samstarfi við hagaðila í nærsamfélaginu og að við hygðumst flýta verkefnum á sviði stafrænnar þróunar. Einnig var ákveðið að Landsvirkjun myndi greiða 10 milljarða króna í arð til ríkissjóðs í ár, eða meira en tvöfalt hærri upphæð en á síðasta ári.“