Eigendur aflandskróna hafa frá setningu gjaldeyrishafta getað hagnast með því að skipta greiðslum af íbúðabréfum í erlendan gjaldeyri, kaupa síðan aflandskrónur að nýju fyrir gjaldeyrinn og fjárfesta aftur í skuldabréfunum.

Viðskiptablaðinu er kunnugt um að þetta hafi verið gert í nokkrum mæli, þótt þessi „hringur“ sé nú svo til liðinn undir lok. Þeir sem þetta gerðu högnuðust því fyrst og fremst á muni á skráðu seðlabankagengi og aflandsgengi krónunnar, sem hefur verið tugum prósentum veikara.

Allt frá setningu gjaldeyrishaftanna í nóvember 2008 hefur erlendum eigendum Íbúðabréfa (HFF) útgefin af Íbúðalánasjóði verið heimilt að skipta greiðslum af bréfunum í erlendan gjaldeyri. Þar sem um er að ræða jafngreiðslubréf er heimilt að fara út með bæði höfuðstólsgreiðslu og vaxtagreiðslu, en í tilviki ríkisbréfa (RIKB) er einungis um vaxtagreiðslur að ræða. Því hefur einkum og sér í lagi stysti flokkur íbúðabréfa, HFF 14, verið vinsælastur til þess að skipta aflandskrónum í erlendan gjaldeyri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.